151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir svörin. Varðandi frjálsar handfæraveiðar þá fer, að því er mér skilst, 80–90% á fiskmarkað þannig að það skilar sér þar. Þó að við tölum um frjálsar handfæraveiðar getum við sett ákveðnar reglur, hversu margar rúllur megi vera með og annað, sem við erum með nú þegar. Þetta eru vistvænar veiðar og þetta eru, myndi ég segja, hagkvæmar veiðar að því leyti að þær skila sér til þessara litlu byggðarlaga sem þurfa á þessu að halda. Öll aukning sem við gætum sett í bolfisksveiðarnar ætti að fara í þessar veiðar og við ættum að byrja á að prófa að fara þá leið.

Mig langar líka að spyrja: Telur landbúnaðarráðherra að við eigum möguleika á að vera með það góða gróðurhúsaræktun að við gætum orðið sjálfbær í grænmetisræktun? Segjum bara innan fjögurra, fimm ára, að við gætum eflt gróðurhúsaræktun það mikið að við yrðum sjálfbær?

Í sambandi við sauðfjárbændur, ég var sem drengur í sveit og mér sýnist menn alltaf vera að ýta vandamálum sauðfjárbænda á undan sér, mér finnst ekkert breytast. Það er eins og það sé gjörsamlega vonlaust að hífa þennan búskap upp þannig að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi af þessu. Maður skilur ekki hvers vegna í ósköpunum ekki er búið að finna lausn á þessu. Ég man eftir þessu sem krakki og síðustu 50–60 árin virðist alltaf vera sama vandamálið og engar lausnir.