Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

málefni barna.

[13:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara fyrirspurninni vil ég segja að almennt er gott að vera barn á Íslandi og almennt er það svo að Ísland er það land þar sem möguleikar barna sem fæðast við erfiðar aðstæður og meiri áskoranir eru mestir á að komast áfram í lífinu og það er gott. Þurfum við að gera meira? Já, við þurfum að gera meira.

Hv. þingmaður nefnir hér eitt atriði sem lýtur að því þegar börn eru búsett hjá foreldrum, til að mynda einstæðum foreldrum sem eru örorkulífeyrisþegar, að viðkomandi foreldri fái áfram heimilisuppbót þegar barn þess hefur nám. Þegar ég tók við sem ráðherra var þetta upp að 18 ára aldri. Í lok árs 2018 gerðum við breytingar þannig að það er heimilt að lengja þetta tímabil upp í 20 ár. Það er breyting sem gerð hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hins vegar hafa komið upp mál og við höfum það til skoðunar hvort ástæða sé til að bregðast við því. Ástæðan fyrir því 20 árin eru þarna undir er vegna þess að þegar viðkomandi hefur síðan háskólanám þá er möguleiki á því að fá námslán eða annað slíkt. Það má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að fara hærra hvað þetta snertir. En við höfum nú þegar opnað á að hækka aldurinn úr 18 í 20 ár en erum, vegna dæma sem hafa komið upp, með það til skoðunar hvort ástæða sé til að gera einhverjar frekari breytingar á þessu kerfi. Við viljum að öll börn fái sömu tækifæri í íslensku samfélagi og kerfið okkar á að halda utan um þau og hvetja til þess með öllum mögulegum hætti.