151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

málefni barna.

[13:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir svarið en ég get ekki sætt mig við það vegna þess að það er ekki eðlilegt að refsa börnum fyrir að vilja búa heima meðan á námi stendur. Fyrst þau í ríkisstjórninni gátu lengt þetta um tvö ár gátu þau líka gert það þannig að á meðan á námi stæði væri foreldrum ekki refsað. Það sem hefur alltaf komið fram er: Hvar á að fá peningana? Það er alltaf sagt þegar kemur að öryrkjum eða börnum þeirra. Það eru ekki til peningar. En kemur sama rullan þegar útlendingar eiga að geta gist í sóttvarnahúsi? Þá er hægt að borga þó að Norðmenn og Englendingar borgi ekki. Það virðast alltaf vera til peningar í allt annað en að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda, þ.e. einstæðum foreldrum, öryrkjum og börnum þeirra.