151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

Suðurstrandarvegur.

[13:26]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú byrjaði eldgos á Reykjanesskaga fyrir tæpum sex dögum, tæpri viku, og er ljóst að það er að mörgu að hyggja í slíku ástandi. Þetta er sem betur fer mjög lítið gos og hefur ekki valdið miklu raski en þó er það þannig að Suðurstrandarvegur er lokaður og Grindavíkurvegur er orðinn að hálfgerðu bílaplani. Það er auðvitað þannig að þegar svona kemur upp á þá raskast samgöngur á svæðinu, það er alveg ljóst.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í áætlanagerð, bæði fyrir gosið sem snýr að þessu svæði en líka hvað hefur gerst í áætlanagerð upp á horfur til lengri tíma síðan gosið hófst. Gosið gæti þess vegna klárast seinna í dag en það gæti líka mögulega staðið í einhver ár. Það er kannski ekki endilega sanngjarnt að ætlast til þess að komin séu fullkomlega heildstæð plön um allar mögulegar niðurstöður á þessum tímapunkti en það væri gott að vita hvort fram hafi farið einhvers konar áætlanagerð eða stefnumótun eða eitthvað í samgönguráðuneytinu sem snýr að þessu, sem hefur það í huga að tryggja sem minnst rask á samgöngum, sérstaklega í kringum Grindavík, á meðan þetta ástand varir, hvort sem það er til styttri eða lengri tíma.