151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

Suðurstrandarvegur.

[13:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það liggur í augum uppi að fyrst og fremst hefur vinna stjórnkerfisins, hvort sem er stofnana þeirra eins og Vegagerðarinnar í þessu tilviki eða ráðuneyta eða annarra, snúist að einhvers konar viðbragði, að tryggja öryggi eins og hægt er, fylgjast með vegum og áhrifum jarðskjálftanna og síðan mögulegs eldgoss sem ég tek undir með hv. þingmanni að er á eins heppilegum stað og frekast er unnt út frá hættu á að skemma mannvirki eða ógna fólki. Fyrir vikið hefur þetta allt gengið vel þó að það hafi þurft að loka Suðurstrandarvegi vegna sigs. Síðan eru menn með áætlanir um að lagfæra það sem þarf að laga, þar sem eru sprungur eða hætta á sigi, þar sem öryggi í umferðinni minnkar. Það er fyrst og fremst það og svo kannski að bregðast við og setja útskot á einhverja staði þar sem væri pláss fyrir fleiri bíla að snúa við eða leggja. En auðvitað eru engin plön uppi hér og nú, enda væri það bara óábyrgt að fara að byggja upp einhvern ferðamannastað með tilheyrandi breyttri forgangsröðun og taka fjármuni frá öðrum mikilvægari hlutum í þetta verkefni. Ef það reynist hins vegar svo að þarna sé um svokallað dyngjugos að ræða, og það verði viðvarandi eldsumbrot eða hraunrennsli upp úr þessum litlu gígum á þessum takti, þá hlýtur að koma til skoðunar að reyna að gera þetta að einhvers konar öruggu svæði til að skoða. (Forseti hringir.) Það verður örugglega vilji mjög marga og löngun til þess og þá þurfa að koma þar til einhverjar umbætur á vegakerfi.