151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

Suðurstrandarvegur.

[13:30]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott svar. Það er, eins og ég segi, erfitt að ætla að fara hratt af stað með svona áætlanir. En það var lengi vitað að lögregla á svæðinu var ekki nægilega vel búin til þess að geta sinnt öllum þeim vegalokunum og allri þeirri stýringu sem þörf er á og sem fyrr hafa björgunarsveitir stigið svolítið inn í þetta. Ég veit að lögregla er á forræði hæstv. dómsmálaráðherra, en mig langar samt til að velta því fyrir mér hvort ráðherra muni beita sér á einhvern hátt fyrir því að gerð verði einhvers konar langtímaáætlun sem snýr að því að byggja upp lögregluna á svæðinu þannig að hún geti sinnt þessu hlutverki, frekar en að reiða sig alltaf á óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna. Björgunarsveitirnar eru boðnar og búnar til að bjarga fólki en ég held að það sé ekki þeirra helsta starfssvið að stýra umferð.