151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlit hennar um hennar málaflokk. Í fjármálaáætlun er að finna mikilvægan kafla sem stendur eins og handan tíma og rúms. Þessi kafli ber yfirskriftina Starfsemi hins opinbera hafi árangur að leiðarljósi. Segir þar, með leyfi forseta:

„Á undanförnum áratugum hefur áhersla á aukna skilvirkni og gagnsæi í umsvifum hins opinbera farið vaxandi. Árangur hins opinbera verði ekki mældur og metinn í auknum útgjöldum til einstakra málaflokka heldur skipti máli að almenningur fái þá þjónustu er væntingar standa til. Slík nálgun er oft kennd við árangursmiðaða fjárlagagerð og byggir í grunninn á að þegar ákvarðanir eru teknar um fjárveitingar til einstakra málefnasviða liggi fyrir upplýsingar um hvaða árangri stjórnvöld hyggist ná og hvaða árangri fyrri fjárveitingar hafa skilað.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Stefnumótunarákvæði laga um opinber fjármál byggir á þessari hugsun. […] Árlega skal hver ráðherra einnig birta sérstaka ársskýrslu þar sem farið er yfir árangur og ávinning af ráðstöfun fjárveitinga.“

Síðan segir að enda þótt ekki sé hægt að leggja eina mælistiku á hvort árangri sé skilað geti vandaðir og skýrir árangursmælikvarðar engu að síður gefið góða vísbendingu um hversu skilvirk starfsemin er og hversu vönduð þjónusta er veitt.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra nýsköpunarmála hvaða kvarða hún telji órækasta við mat á auknum fjárveitingum að undanförnu til nýsköpunar og sömuleiðis spyr ég hana hvaða kvarða hún leggi til grundvallar við mat á árangri af þeirri ákvörðun að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands. En sú ákvörðun hefur mælst afar misjafnlega fyrir, eins og sést af fjölmörgum umsögnum um frumvarp hennar um þetta efni og hefur sömuleiðis komið fram í máli margra gesta á fundum hv. atvinnuveganefndar.