151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Að þessu sinni beini ég máli mínu að hæstv. ráðherra sem ráðherra ferðamála. Sagt hefur verið að markmið ferðaþjónustunnar ætti að vera að hámarka arðinn af hverjum ferðamanni samhliða því sem hann skilji eftir sig sem fæst spor í auðlindinni, eins og komist er að orði. Hér erum við ekki að tala um hóflausan massatúrisma, ef svo má segja, með tilheyrandi áraun á þolmörk ferðamannastaða. Hvaða leiðir sér hæstv. ráðherra til að ná þessu markmiði, ef undir það er tekið af hennar hálfu sem áður var lýst? Hvert telur hún hlutverk ríkisvaldsins í þessu efni, í atvinnugrein sem er sjálfsprottin og drifin áfram af hvötum einkaframtaks í markaðshagkerfi? Telur ráðherra t.d. að aðgerðir stjórnvalda til að auka kröfur um gæði og öryggi í ferðaþjónustu, eins og að krefjast þess að íslenskir leiðsögumenn séu í fararbroddi, a.m.k. í ákveðnum tegundum af ferðum sem gætu verið ákveðnar í samráði við Leiðsögumannafélag Íslands, væru til þess fallnar að ná árangri í þessu efni? Önnur slík aðgerð væri að þeir einir störfuðu sem leiðsögumenn sem hlotið hefðu til þess leyfi á grundvelli viðurkennds náms.