151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:55]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru ótal margir áhugaverðir málaflokkar sem ástæða væri til að ræða hér við hæstv. ráðherra. En undir ráðherrann heyra málaflokkar sem skipta sérstaklega miklu máli á þeim tímum sem við erum að upplifa. Ég hjó eftir því í umræðu í gær, í atkvæðagreiðslu um frumvarp hæstv. ráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun, að hún fullyrti að verið væri að gefa verulega í í framlögum til nýsköpunar. En, herra forseti, staðreyndin er sú að þó að tímabundið hafi sannarlega verið bætt í á þessu ári og því næsta er strax dregið saman um samtals 10 milljarða í framlögum til nýsköpunar frá 2022–2026. Þessi tímabundna aukning, eins frábær og hún er, er því miður ekki komin til að vera.

Annað sem mig langar að nefna í því samhengi, herra forseti, er sú staðreynd að á sama tíma og ríkisstjórnin hefur verið að auka fjármagn í samkeppnissjóði fyrst og fremst hefur Ísland hrapað niður á lista Global Innovation Index á árunum 2015–2020, á sama tíma og stöðugur hagvöxtur hefur verið hér á landi. Þá hefur dregið verulega saman í stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun hjá háskólum og opinberum stofnunum sem er mikið áhyggjuefni, enda hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að með því að auka eigin framlög til háskóla og opinberra stofnana hvetur ríkið til frekari umsvifa í einkageiranum. Þá er um þessar mundir mikil áhersla lögð á að nýta nýsköpun sem leið út úr þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir og því ljóst að við þurfum að gera mun betur og styrkja enn frekari aðgerðir til stuðnings vistkerfi nýsköpunar og efla þær stofnanir hins opinbera sem sinna tæknirannsóknum, þjónusta atvinnulífið og sinna margs konar eftirliti.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi raunverulega ekki áhyggjur af stöðunni eins og hún birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og hvort ekki væri einmitt ástæða til að gefa meira í. Sömuleiðis út af því að ráðherrann nefndi Lóu: Er fjármagn bara tryggt á næsta ári, ekki áfram?