151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Varðandi klasastefnuna þá er hún glæný. Við höfum ekki tekið frá sérstaka fjármuni til þess að innleiða hana, en það er auðvitað alltaf forgangsatriði. Við erum með okkar málefnasvið og það kallar á forgangsröðun innan sviðsins. Ég sé reyndar töluverð samlegðaráhrif í hvatastyrkjum Lóu og hluta af því sem lagt er til í klasastefnu, sérstaklega hvað varðar svæðisbundið klasasamstarf, það er verkfæri. Og maður sér að margar umsóknir eru í raun ýmist til að koma af stað eða komast áfram með svæðisbundið klasasamstarf. Það kallar á forgangsröðun innan málefnasviða og við erum á fullu í því að vinna að bæði innleiðingu og aðgerðum til að sækja fram og ná tilætluðum árangri í klasastefnunni.

Varðandi ferðaþjónustuna og 720.000 ferðamenn þá er maður eiginlega bara búinn að læra sitt. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að gerðar séu áætlanir og að spá búi að baki, að það séu einhverjar undirliggjandi forsendur. En svo er þessi veira í raun það eina sem ræður. Ég þori bara ekki að segja til um það hvort það sé raunhæft eða ekki að við tökum á móti 700.000 ferðamönnum. Ef ég ætti að svara því í dag væri svarið á þá leið að mér þætti það frekar ólíklegra en hitt. Ef ég hefði verið spurð fyrir nokkrum dögum hefði ég sagt: Ja, það gengur svo vel að bólusetja svo víða í kringum okkur að það er vel raunhæft. Við erum búin að taka frá markaðspeninga, herferðin er tilbúin og bólusetningin gengur vel annars staðar. Ef hún er farin að ganga vel hér um mitt ár ætti það að spila vel saman. Svo bara breytast hlutirnir. Undirliggjandi forsendur eru þarna eins og aðrar sem síðan kunna að hreyfast eitthvað til en bóluefni og bólusetning er í raun það sem ræður því hversu hratt muni ganga að taka á móti fólki.