151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað ótrúlegt að hlusta á hv. þingmann tala um að ráðherra sé í þann mund að slátra stofnanaumhverfi nýsköpunar. Það er bara erfitt að eiga eitthvert almennilegt samtal í því samhengi. Það að endurhugsa og endurraða einni stofnun á Íslandi sem fær um 700 millj. kr. á fjárlögum og er svo með sértekjur — nýsköpunarumhverfið stendur og fellur ekki með því. Í öðru lagi værum við ekki að gera þær breytingar nema af því að við trúum því, og byggjum það á okkar vinnu, að við séum að gera nýsköpunarumhverfinu gagn. Við leggjum þetta til eftir heilmikla vinnu. Tæknisetur mun breyta umhverfinu hér. Efling nýsköpunar úti á landi mun breyta nýsköpunarumhverfi fyrir landið allt. Tækniþróunarsjóður með aukna fjármuni skilar nýjum hugmyndum í miklu magni sem skila okkur meiri verðmætum og nýjum fyrirtækjum. Innviðasjóður er til að styrkja sérstaklega tækjabúnað til að innviðirnir séu öflugri hér á Íslandi. Auknir fjármunir í Rannís eru sömuleiðis innviðir ef við erum að ræða það. Hækkun á endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar, bæði á þaki og prósentu, skiptir sömuleiðis máli. Mikil fjölgun á starfsfólki í geiranum, sem er auðvitað mjög víður og breiður, er atriði sem við horfum að sjálfsögðu til. Kría er alvöruinnviður til að stuðla að þroskaðra og öflugra fjármögnunarumhverfi sem er nákvæmlega það sem fyrirtækin þurfa og fólkið og teymin sem einhver þarf að veðja á og leggja fjármagn í. Við erum að setja marga milljarða í það á næstu árum, til að gera nákvæmlega það. Vissulega skiptir máli að við séum að líta til mælikvarða en þá þurfum við líka að vera viss um að við séum að kortleggja og greina og séum með viðeigandi gögn sem kallað er eftir og ég held að stjórnkerfið þar þurfi líka að standa betur að þeirri vinnu.