151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:10]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú hefur hæstv. ráðherra haft heilt kjörtímabil til að kortleggja hvað megi betur fara í nýsköpunarmálum og ég skil ekki alveg þetta svar. Það er í fyrsta lagi ekki eins og ekki sé hægt að skipuleggja breytingar og jafnvel skipta út stofnunum og álíka með einhverjum skipulögðum hætti. En þegar tilkynnt er um niðurlagningu stofnunar og hún rifin markvisst niður áður en komin er lagaheimild fyrir því og segja að það sé allt gert í nafni uppbyggingar þá átta ég mig ekki á því hvaða uppbyggingu verið er að tala um. Eftir stendur það sem ég fór yfir í fyrri ræðu, að við höfum hrapað niður um helming á þessum alþjóðlega nýsköpunarmælikvarða. Þessir nýju innviðir sem er búið að boða hafa ekki sýnt sig og sannað. Það getur vel verið að þeir muni virka. Ég trúi því þegar ég sé það. Það að fleiri vinni við nýsköpun í dag er kannski fyrst og fremst til marks um það ástand sem við búum við. Þegar efnahagsleg áföll ganga yfir fer fólk út í nýsköpun hreinlega til að bjarga sér. En það er ekki endilega út af fyrir sig mælikvarði á að gæði séu að aukast í heildarmyndinni. Þá þarf einhverja mælikvarða, t.d. aukin útflutningsverðmæti, fjölgun einkaleyfa eða álíka, og það hefur ekki enn borið á því. Það er auðvitað frábært að fleiri séu komnir í nýsköpunarstörf, ég gagnrýni það ekki. En ég sé heldur ekki hvernig það er á nokkurn hátt eitthvað sem ríkisstjórnin hefur átt þátt í.