151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Átakið um þrífösun hefur áhrif á þessa uppbyggingu en líka jarðstrengjavæðingin og hún flýtir fyrir áformum Orkubús Vestfjarða sem lúta t.d. að hringtengingu Vestfjarða. Við erum með Vestfirði í forgangi samkvæmt þingsályktun sem Alþingi samþykkti, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfisins, og það hefur hjálpað mjög við ákvarðanatöku til að flýta fyrir þeirri uppbyggingu sem vissulega er þörf á á Vestfjörðum. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að Vestfirðir eru í forgangi; það er vegna þess að þeir hafa ekki verið það fram til þessa eða ekki nægilega mikið. Bæði eru aðstæður þar erfiðar og þar eru svæði sem eru langt á eftir öðrum svæðum á landinu. Það er ekki hægt að una við það. Það er það sem skiptir mestu máli hér.

Það eru stórar fjárfestingar á döfinni samkvæmt kerfisáætlun, bæði hjá Orkubúinu og Landsneti. Auðvitað ber dreifiveitunum skylda til að vinna innan þess ramma sem þær búa við. Við erum með flýtigjald í þrífösun til að flýta þrífösun heilt yfir landið úr 15 árum í fimm ár, og okkur tókst að vinna töluvert hratt eftir óveður í lok árs 2019 og ná mikilvægum framkvæmdum framar í áætlunina. Við höfum gert það sem við getum til að styðja við það þannig að það eru vissulega stórar fjárfestingar í kerfisáætlun og jarðstrengjavæðingin og þrífösunin skiptir máli fyrir Vestfirði eins og aðra. En þar er líka meira verk fyrir höndum en víða annars staðar um landið.