151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:25]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég held að hluti af þeirri grósku sem við finnum fyrir og horfum fram á, og fáum svo mörg dæmi um, sé til kominn vegna aukins stuðnings sem við tókum ákvörðun um á þinginu, að það hafi þessi áhrif. Fólk er að stíga stærri skref. Það er að flýta enn frekar rannsóknum og þróun. Það er að ráða til sín fleira fólk. Ég er alveg sannfærð um að þetta skilar árangri. Markmiðið er auðvitað að við séum samkeppnishæf við önnur svæði og við séum einfaldlega að staðsetja okkur í þessari virðiskeðju þar sem við teljum okkur geta verið raunverulega sterk. Það er klárlega í rannsóknum og þróun. Þessi ákvörðun er tekin tímabundið og þá stendur eftir að svara því hvort framlengja eigi hana og þess þarf þá að sjá stað í fjármálaáætlun. Þessi fjármálaáætlun er nánast algjörlega óbreytt frá þeirri fjármálaáætlun sem birtist í desember og þegar við höfum farið í kosningar og ný ríkisstjórn verður til þarf í raun að smíða nýtt plagg út frá fjármálastefnu.

Hvað varðar heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í vísisjóðum þá er það mín persónulega skoðun að hún eigi að vera til lengri tíma og hún eigi að vera varanleg. Ég er sammála því og við finnum fyrir því og við heyrum það innan úr lífeyrissjóðunum að það truflar að þetta sé tímabundið. En svona eru skrefin stundum þegar maður er í kerfinu og er að reyna að breyta því. Kerfið sjálft er að ganga í gegnum ákveðnar viðhorfsbreytingar gagnvart nýsköpun, hvernig það umhverfi fúnkerar, og lífeyrissjóðirnir líka. Þeir hafa í gegnum tíðina, alla vega sumir hverjir, verið smeykari við þessar fjárfestingar en aðrar og maður finnur að það er líka að breytast. Við komumst ekki lengra að sinni með því að hafa þetta tímabundið og það er sjálfsagt að það sé einhver reynslutími. En ég er þeirrar skoðunar að það væri til bóta að heimildin yrði varanleg.