151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mun, vonandi strax eftir helgi, leggja hér fram hið sjálfsagða mál að framlengja gildistíma ferðagjafar sem er eðlilegt með tilliti til alls. Við höfum enn ekki greitt út nema rétt rúmlega helming þeirrar fjárhæðar sem við gerðum ráð fyrir í ferðagjöfinni og ég hef sagt að ég sé alveg opin fyrir því að hún verði útvíkkuð af því að við höfum ákveðna reynslu af síðasta sumri. En það þarf líka að huga að því hvernig við innleiðum það með tilliti til tækninnar, hugbúnaðar og forritunar, sem við notuðum þegar við smíðuðum ferðagjöfina. Það ætti þó ekki að vera mjög mikið mál og ég tel það mjög vel koma til skoðunar sem hrein og klár Covid-aðgerð að endurtaka leikinn. Frumvarpið sem er að koma þýðir bara framlengingu á því sem þegar var búið að ákveða. En það má líka gera ráð fyrir að ekki muni allir nýta gjöfina. Við höfum nú þegar gert ráð fyrir 1,5 milljörðum sem ekki fara út. Það er þá hægt að huga að því hvernig við setjum þá inn í hagkerfið á sem sanngjarnastan hátt af því að þetta er auðvitað fyrst og fremst efnahagsaðgerð.

Ég get líka alveg tekið undir það með hv. þingmanni að þessi fjallganga er orðin ansi þreytandi en ekki förum við að snúa við núna. Það er þoka þarna eða ský við tindinn og við vitum ekki enn hvenær við komumst alla leið. Á meðan við erum að basla í því verðum við einfaldlega að vera með hugann opinn og hugsa: Hvernig getum við hjálpast að við að stíga skref, stór og smá, til að auka umsvif, hvetja til þess að fólk fari um og aðstoða fyrirtækin á jákvæðan hátt? Ferðagjöfin gekk mjög vel og henni var vel tekið og hún hafði áhrif. Hún hafði líka jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækjanna sem fóru að kynna sig með öðrum hætti gagnvart Íslendingum og bjóða tilboð o.s.frv. Ég er klárlega opin fyrir þessu.