151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálastefnuna til 2026. Hæstv. ráðherra hefur á kjörtímabilinu staðið fyrir ýmsum skipulagsbreytingum á stofnunum á hennar málasviði. Þær breytingar einkennast af því að verkefni eru færð á milli stofnana eða lögð niður og stofnunum fækkað. Nú á að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður. Telur ráðherra að þetta séu aðgerðir sem gagnast samfélaginu á tímum atvinnuleysis, að leggja niður stofnanir þar sem skapast hefur mikil sérþekking, stofnanir sem hafa staðið fyrir nauðsynlegum rannsóknum undanfarna áratugi? Mér er það minnisstætt þegar fjallað var um skemmdir á húsnæði fyrr í vetur þegar sérfræðingar í byggingarannsóknum sögðu að nauðsynlegt væri að framkvæma gæðapróf á gluggum vegna sérstakra veðurfarsaðstæðna hér, að alþjóðleg gæðavottun tryggi ekki að gluggar þoli veður og vind hér á landi. Í ljósi þess að annað hvert hús á landinu virðist leka og safna myglu, þarf þá ekki frekar að efla rannsóknir á þessu sviði? Við vitum vel hvernig fór þegar eftirlit með byggingum á framkvæmdastigi var fært í hendur einkaaðila. Hið opinbera fríar sig allri ábyrgð á vanrækslu einkaaðila við eftirlit og ítrekað lenda kaupendur í vandræðum þegar skemmdir koma í ljós. Þá eru gloppur í lögunum sem gera byggingariðnaðinum kleift að komast undan fjárhagslegri ábyrgð með kennitöluflakki. Þessi stefna Sjálfstæðisflokksins, að draga úr opinberu eftirliti og opinberum rannsóknum, hefur valdið samfélaginu umtalsverðum skaða. Er í alvörunni ráðlegt að halda þessari vitleysu áfram? Er ekki frekar þörf á að snúa stefnunni við, byggja aftur upp stofnanaþekkingu, efla byggingarannsóknir, koma á almennu byggingareftirliti, koma í veg fyrir að neytendur sitji uppi með ónýt hús og mikið fjártjón?