151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:39]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi spurningar um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og aðgengi fyrir alla sem er málefni sem hv. þingmaður kemur reglulega inn á — ég þakka honum fyrir það og bara þannig að hann viti það þá hefur það áhrif, dropinn holar steininn. Við erum að skoða það í ráðuneytinu, þannig að ég upplýsi það hér, fyrst hv. þingmaður spyr, að nýta fjármuni sem eru til staðar í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna Covid-ráðstafana og kanna hvað við getum gert til að fara í átak til að laga hluti sem ætti að vera tiltölulega auðvelt að laga. Ég er þeirrar skoðunar að fjármagni væri vel varið í það. Ég held líka að það gæti verið tækifæri til að ná fram umræðu og mögulega viðhorfsbreytingu í því að við lögum það til framtíðar; fara í átak, sýna hvernig hægt er að gera það, það gæti líka skapað umræðu svo að fleiri setji á sig þau gleraugu sem hv. þingmaður er alltaf með þegar kemur að uppbyggingu á áfangastöðum, að það sé aðgengi fyrir alla. Við getum auðvitað ekki verið að framkvæma og laga svo þessa hluti eftir á, heldur þurfum við að framkvæma hlutina þannig að þetta sé tryggt. Við hv. þingmaður höfum margoft rætt það að í því felst ekki að það sé aðgengi fyrir alla að öllu sem hægt er að gera alls staðar heldur að allir geti notið náttúrunnar og að allir geti notið þess að verið er að setja opinbert fé í að byggja upp áfangastaði fyrir fólk, að hugað sé að því að það sé í boði fyrir alla. Þetta eru atriði sem við erum að skoða í ráðuneytinu og ég vona að af þessu verði. Ég er nokkuð viss um að hv. þingmaður verður ánægður ef okkur tekst að koma þessu í gegn.