151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans inngangsræðu hér. Ekki þarf að fjölyrða um það að mikilvægt er að hafa skýr markmið að leiðarljósi, sérstaklega hvað varðar útgjöld ríkisins. Það skiptir líka máli að árangur sé mælanlegur. Mín spurning snýr að mælanlegum árangri, bæði eftir að aðgerð er yfirstaðin og líka jafnóðum, að það sé hægt að meta árangurinn og mæla hann. Í áætluninni segir einmitt að starfsemi hins opinbera eigi að hafa árangur að leiðarljósi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á undanförnum áratugum hefur áhersla á aukna skilvirkni og gagnsæi í umsvifum hins opinbera farið vaxandi. […] Slík nálgun er oft kennd við árangursmiðaða fjárlagagerð og byggir í grunninn á að þegar ákvarðanir eru teknar um fjárveitingar til einstakra málefnasviða liggi fyrir upplýsingar um hvaða árangri stjórnvöld hyggist ná og hvaða árangri fyrri fjárveitingar hafa skilað. […] Vandaðir og skýrir árangursmælikvarðar geta engu að síður gefið góða vísbendingu um hversu skilvirk starfsemin er og hversu vönduð þjónusta er veitt. Með því er stjórnendum ríkisins veitt mikilvægt aðhald og komið er til móts við vaxandi kröfu um gagnsæi í starfsemi hins opinbera. Miklu skiptir að íbúarnir sem standa undir kostnaði við opinber umsvif með sköttum sínum geti treyst því að almannafé sé nýtt með sem skilvirkustum hætti og að upplýsingar um nýtingu liggi fyrir.“

Um þetta þarf vart að deila, herra forseti. Stóraukin útgjöld til umhverfismála og þá sérstaklega til loftslagsmála er umfjöllunarefni mitt í þessari spurningu. Nú fór hæstv. ráðherra vel yfir það hve aukningin hefur orðið mikil, sérstaklega til þessa síðastnefnda málaflokks. Ég ætla að spyrja hann: Hver er árangursmælingin? Hvernig er árangur mældur hvað varðar það fé sem sett er í þennan málaflokk? Og einnig í lokin varðandi kolefnisgjald á eldsneyti sem hefur verið að hækka undanfarin ár: Hefur árangur af álagningu þess skatts verið mældur? (Forseti hringir.) Og þá hvernig? Hver hefur árangurinn verið af álagningu þess gjalds og hækkun þess?