151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvægt atriði sem snýr að skilvirkri og árangursmiðaðri fjárlagagerð. Ég held að tilkoma þessarar fimm ára áætlanagerðar sem lög um opinber fjármál fela í sér hafi á síðustu árum skilað okkur mjög miklum árangri, bæði til þess að skapa fyrirsjáanleika fyrir hið opinbera og líka fyrir almenning í landinu til að átta sig betur á því hvers konar forgangsröðun er uppi á hverjum tíma. Forgangsröðunin sem þessi ríkisstjórn hefur haft uppi er m.a. að leggja stóraukna áherslu á umhverfismál, loftslagsmál, úrgangsmál, ofanflóðamál, fráveitumál, loftslagsmál og náttúruvernd.

Mig langar að nefna sérstaklega í þessu svari mínu til hv. þingmanns að bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda árið 2019, sem gefnar voru út í fyrrasumar, benda til þess að við séum farin að sjá árangur af aðgerðum okkar. Það er mjög ánægjulegt vegna þess að í mörg ár þar á undan höfðum við staðið í stað. Það verður spennandi að sjá núna þegar tölurnar koma endanlega í vor hvar við stöndum. Ég á von á því að á næstu árum höldum við áfram að sjá þessa þróun, enda er það í takti við áætlanagerð okkar í loftslagsmálum.

Mig langar líka að nefna úttekt Umhverfisstofnunar sem fer fram árlega á ágangi á friðlýstum svæðum. Þar sjáum við, í drögum sem ég hef séð hjá stofnuninni, heilmiklar breytingar á milli ára þar sem við erum að ná árangri fyrir það fjármagn sem við höfum verið að setja í aukna uppbyggingu innviða.