151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fullyrðir að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé endurtekið efni og að ríkisstjórnin kæri sig kollótta um ýmislegt, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Ég er náttúrlega mjög ósammála þessu. Sú fjármálaáætlun sem hér er lögð fram ver í grundvallaratriðum þá aukningu sem farið hefur til ýmissa málaflokka, þar með talið til umhverfismála, á undanförnum árum. Að auki erum við, þegar við horfum til umhverfismála, að auka framlögin um einn milljarð árlega í loftslagsmál. Ég hefði talið að hv. þingmaður, sem ég veit ekki betur en að sé með mér og fleirum á loftslagsvagninum, myndi fagna þessu frekar og ef svo hefði ekki verið, þá hefði sennilega heyrst hljóð úr horni.

Ég vil taka undir það að ójöfnuður er atriði sem við verðum að horfa til þegar kemur að loftslagsmálunum. Aðgerðir okkar geta haft mismunandi áhrif á fólk eftir því hversu mikið það hefur á milli handanna. Þetta er ein af þeim greiningum sem við höfum sett í gang í ráðuneytinu á grundvelli aðgerðaáætlunar okkar. En í hvað fer þessi milljarður, þessi milljarðsaukning? Jú, þar er verið að horfa til þess að flýta orkuskiptum og 3 milljarðar af 10 fara í aukinn stuðning við orkuskipti á næstu árum, til að flýta þeim. Þar horfum við til orkuskipta í þungaflutningum og orkuskipta í ferðaþjónustu sérstaklega. Þetta fer í aukna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, þ.e. tæpir 4 milljarðar af þessum 10. Þetta fer í betri almenningssamgöngur og innviði, sérstaklega þegar kemur að umhverfisvænni fararskjótum og síðan í loftslagsvænni landbúnað. Þetta eru allt aðgerðir sem eiga að miða að því að hjálpa okkur að ná auknum skuldbindingum okkar Íslendinga sem forsætisráðherra kynnti í desember síðastliðnum.