151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:05]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Eins og sést í fjármálaáætluninni sem liggur hér fyrir eru tugir milljarða ætlaðir í loftslagsmál næstu árin og mér finnst skipta miklu máli að markmið og raunhæfar væntingar og ekki síst árangur liggi fyrir þegar svona miklum fjármunum skattgreiðenda er ráðstafað í tiltekið verkefni, sem hæstv. umhverfisráðherra og ég erum alveg sammála um að er sjálfsagt og jákvætt verkefni. Í skýrslunni Endurheimt votlendis, sem umhverfisráðuneytið gaf út fyrir nokkrum árum, var lagt mat á kostnað við endurheimt votlendis sem er ein aðgerð í þessu öllu saman. Niðurstaða skýrsluhöfunda var sú að kostnaðurinn væri um 800 kr. á hvert tonn af koltvísýringi ef litið er á árangur til eins árs en aðeins um 16 kr. ef litið er til 50 ára, sem er ekki fjarri lagi vegna þess að endurheimt með þessum hætti er varanleg aðferð. Samkvæmt mati íslenskra vísindamanna stafar langstærsti hluti losunar Íslands á gróðurhúsalofttegundum frá landnotkun, framræstu landi, á bilinu 60–70%. Á þetta hef ég bent núna í bráðum áratug. Votlendissjóður býður upp á kolefnisjöfnun á tonninu á 2.000 kr. með endurheimt votlendis en annað félag sem heitir Kolviður býður kolefnisjöfnun með skógrækt fyrir 2.200 kr. tonnið. Hér er sem sagt búið að leggja mat á kostnað við þessa tilteknu aðgerð. Víkur þá sögunni að þessari fjármálaáætlun á bls. 102–103 en þar segir að á árunum 2020–2024 sé áætlað að setja samtals 60 milljarða í málaflokkinn. Hvað eiga þessir 60 milljarðar kr. að minnka útblásturinn mikið? Svarið við þessu skiptir máli finnst mér. Hvað kostar þá hvert tonn? Ég fæ ekki betur séð en að þær leiðir sem ríkið er að fara í loftslagsmálum séu mögulega margfalt dýrari en t.d. endurheimt votlendis með þeim aðferðum sem ég hef nefnt hér, kannski jafnvel fimmtugfalt dýrari. Ég læt þetta duga í bili.