151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þá hlið loftslagsmálanna sem snýr að endurheimt votlendis. Það sem mig langar að ræða hérna við hv. þingmann er einmitt mikilvægi þess að ráðast í endurheimt votlendis, ekki bara út frá loftslagsmálum heldur líka út frá öðrum markmiðum, ekki síst þeim að endurheimta vistkerfi fugla og annarra dýra vegna þess að það skiptir máli þegar kemur að náttúruvernd líka. Við höfum á heimsvísu ræst fram votlendi um sirka 50% af því votlendi sem var áður en áhrifa mannanna fór að gæta jafn mikið og nú er. Votlendi geymir gríðarlega mikið af kolefni eins og hv. þingmaður var í raun að benda á og vísa til og þess vegna tek ég undir að það er mjög mikilvægt að auka akkúrat þetta. Í áætlun sem við forsætisráðherra kynntum sumarið 2019 var fjallað um tíföldun í endurheimt votlendis frá því sem var árið 2017 eða 2018, núna á fjórum árum fram til ársins 2022. Þetta mun skipta mjög miklu máli fyrir loftslagið en líka fyrir náttúruverndina.

Sá punktur sem mig langar að draga fram að lokum hvað þetta varðar er að við þurfum að horfa til fjölbreyttra aðgerða þegar kemur að loftslagsmálunum, einfaldlega vegna þess að sum þeirra telja meira inni í loftslagsskuldbindingar okkar en önnur. Endurheimt votlendis hefur fjölbreytt markmið í huga en telur ekki eins mikið og margir aðrir þættir til þess að draga úr bókhaldslosun okkar.