151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom hér inn á atriði sem er mjög mikilvægt og er kostnaðar- og ábatagreining fyrir þær aðgerðir sem ráðist er í. Það sem aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á hvað þetta atriði varðar eru greiningar sem lágu fyrir frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands en við höfum hins vegar líka hafið greiningu núna sérstaklega á þeirri aðgerðaáætlun sem kom út í fyrrasumar þar sem farið er nánar ofan í þessa þætti. Ég held að þetta muni skipta miklu máli þegar við tökum áframhaldandi ákvarðanir um það hvert við beinum fjármagni hins opinbera í loftslagsmálunum.

Ég vil nefna aðeins varðandi orkuskiptin að það er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram með þessar ívilnanir sem hafa verið, svo lengi sem við þurfum þess. Þannig nýtum við fjármagn ríkisins vel til að ýta undir þessi umskipti sem verða að verða. Ég er ekki sammála því að alþjóðasamningar séu að beina okkur í rangan farveg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fylgjumst að með Noregi og Evrópusambandinu einfaldlega vegna þess að þar er metnaðurinn mikill. Við verðum að sýna fram á að við getum dregið úr losun í helstu þáttum sem um er að ræða, sem eru orkumálin, landbúnaður, sjávarútvegur, úrgangsmál. Síðan er náttúrlega, sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni, sérstaða á Íslandi þegar kemur að landnýtingunni. Þar er mjög mikil losun sem við erum með okkar aðgerðum líka að takast á við. En ég held að ég geri mér manna best grein fyrir því að í mörgum af þessum málum er mikilvægt að við gerum enn betur.