151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú er Ísland nýbúið að bæta við skuldbindingar sínar vegna Parísarsáttmálans og við erum komin upp í 55% samdrátt. Það var tilkynnt 11. desember síðastliðinn en 17. desember var fjármálaáætlun, sem við erum í rauninni að fjalla um aftur, samþykkt og í henni var ekki útskýrt hvernig við ætluðum að ná markmiðum um 55% samdrátt. Maður bjóst við að í nýrri áætlun kæmu fram áætlanir um það hvernig ætti að mæta þessari nýtilkynntu ákvörðun um að auka samdráttinn í 55%. Það er hins vegar ekki gert af því að áætlunin er efnislega óbreytt frá síðustu fjármálaáætlun fyrir áramót. Það eina sem maður sér hérna er millifærsla á 1 milljarði úr varasjóði yfir á þau málefnasvið sem sá milljarður var ætlaður í samkvæmt sérstöku fjárfestingarátaki vegna Covid-viðbragða sem var samþykkt á síðasta ári, milljarður sem var þar áður en farið var út í að auka skuldbindingarnar uppi í 55% samdrátt. Mín spurning er mjög einföld: Hvar er áætlunin um það hvernig við náum þessum 55% samdrætti? Af hverju er það ekki einhvers staðar mjög aðgengilegt, bara svart á hvítu? Þetta er stóra markmiðið okkar. Af hverju get ég ekki farið inn á vef Umhverfisstofnunar eða umhverfisráðuneytisins og séð 55% markmiðið okkar — það er þessi dagsetning, við erum komin hingað og stefnum á að ná markmiðinu á þennan hátt með vissum aðgerðum og vörðum? Af hverju er í fyrsta lagi svona erfitt að hafa eitthvað svoleiðis? Í öðru lagi: Af hverju er ekki fjallað um það í fjármálaáætlun þar sem stjórnvöld eiga að fjalla um það?