151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:24]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Loftslagsváin er raunveruleg ógn og við verðum að taka stór skref til að draga úr losun og standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Þótt aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu jákvæðar að mörgu leyti þá finnst mér vanta upp á þá nálgun að fá almenning í landinu og atvinnulífið sterkar inn og með í þessa vegferð. Undirstaða þess að íslensk framleiðsla og íslenskar útflutningsgreinar verði samkeppnishæfar á alþjóðavísu er að fyrirtækin geti verið með í því að gera samfélagið okkar vistvænt og sjálfbært. Þannig tryggjum við betri lífskjör á Íslandi til frambúðar. Í mínum huga er ekki hið eina rétta svar að einblína bara á hversu mikið fjármagn fer í málaflokkinn. Það verður líka að tryggja að aðgerðirnar virki og þær nái til allra.

Hæstv. ráðherra hefur talað um að útgjöld til loftslagsmála verði aukin núna um heila 10 milljarða. Þar vekur reyndar athygli mína að áætlun ráðherrans nær, að mér sýnist, allt til ársins 2031 en fjármálaáætlunin sjálf nær hins vegar bara til 2026. Það virðist eins og tímabilið hafi verið framlengt í þessum málaflokki bara til þess að geta náð þessari 10 milljarða tölu. Af hverju ekki bara að tala um árið 2050 og sjá hvaða tala fæst út úr þeirri leikfimi?

Til þess að ná tilætluðum árangri þurfum við sameiginlegt átak allra, ekki bara átak stjórnvalda sem verður kannski óhjákvæmilega allt á forsendum stjórnvalda. Evrópusambandið hefur nálgast málið þannig, sem mér finnst bæði heilbrigt og fallegt, að fá fyrirtækin með og mótað öflugt styrkjakerfi til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum í þessu sambandi. Spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort einhver sambærileg vinna hafi farið fram hér á landi í þessu formi, að tryggja að hækkun gjalda (Forseti hringir.) muni skila sér á ný út í atvinnulífið og til heimilanna í formi stuðnings til þeirra sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera starfsemi sína grænni.