151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Mig langar að nefna fyrst það sem fram kom í máli hv. þingmanns um að ramminn liggi ekki alveg fyrir. Ég vil meina að hann geri það. Í rauninni erum við að vinna eftir fyrri fjármálaáætlun þar sem markmiðin koma fram og með hvaða móti á að vinna að þeim og svo er viðbótin til loftslagsmálanna útskýrð hérna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum að halda áfram eftir þá miklu uppbyggingu á fjármagni til þessa málaflokks sem orðið hefur plús þessi viðbót sem núna er að verða.

Hv. þingmaður kemur inn á mjög áhugavert atriði sem er samstarf á milli ráðuneyta og samstarf við sveitarfélög og svo líka að sjálfsögðu við atvinnulífið. Þarna er í rauninni um allmiklar áskoranir að ræða vegna þess að loftslagsmálin taka á svo ofboðslega mörgum málaflokkum og vegna þess að það er þannig þá ákvað ríkisstjórnin að setja á fót sérstaka ráðherranefnd um loftslagsmál sem tekur fyrir allar helstu ákvarðanir sem lúta að þeim málaflokki. Það er líka starfandi hópur ráðuneytisstjóra til að fylgja málunum eftir vegna þess að einhver þarf að halda í spottana og sjá til þess að það sé verið að vinna eftir og fylgja eftir áætlunum sem eru núna, og það er nýtt frá þessari ríkisstjórn, fjármagnaðar. Ég hef lagt gríðarlega mikla áherslu á að áætlunum sem við höfum verið að leggja fram í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fylgi fjármagn.

Ég tek líka undir þetta varðandi sveitarfélögin og þétting byggðar er eitt atriði þar. Ég vil nefna að ég er með á þingmálaskrá endurskoðaða landskipulagsstefnu sem m.a. kemur inn á hvernig sveitarfélögin horfa til loftslagsmála í sínu skipulagi og þar hefur átt sér stað heilmikið samtal nú þegar og mun halda áfram. Síðan rétt aðeins (Forseti hringir.) varðandi tímasett plan um stuðning ríkisins. Hann liggur, vil ég nú meina, fyrir að mestu leyti, bara á grundvelli þeirrar áætlunar (Forseti hringir.) sem nú þegar er fyrir hendi og svo aukningarinnar sem núna er að koma en það mun skýrast enn nákvæmar síðar.