151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn fjármálaáætlun til 2026. Mig langar til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort það sé byrjað að kortleggja áhættuna af skógareldum og koma á brunahólfum eða hvort reiknað sé með því að ljúka því á þessu tímabili, fram til 2026. Ég hef áður spurt hann að þessu en mig langar bara að vita hver staðan er á þessum málum, sérstaklega ef við tökum líka inn í þetta bruna í mosa og sinubruna, hvort búið sé að kortleggja áhættunni af þessu. Ég vil líka spyrja hvort það sé komin áætlun um hvernig eigi að bregðast við, segjum að það yrði t.d. stór skógarbruni á Hallormsstað eða í Skorradal, hvort það séu til áætlanir, hvort til séu tæki og tól til að bregðast við eða hvort það sé eitthvað sem verður kannski tekið á í framtíðinni.

Síðan langar mig að spyrja um mengunarkvóta. Ég veit að við Íslendingar höfum selt einhvern mengunarkvóta en gæti staðan orðið sú að við þyrftum jafnvel að fara að kaupa mengunarkvóta? Mér skilst að verðið á þessum mengunarkvótum sé orðið býsna hátt og vil spyrja hvort hann telji að ekki þurfi að breyta þessu kerfi einhvern veginn vegna þess að það er svolítið galið að við skulum vera að selja sóðum mengunarkvóta dýrum dómum, (Forseti hringir.) sem sagt að auka sóðaskapinn með því. Verðum við ekki að finna einhverja aðra lausn?