151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ítreka spurninguna um hvort hann reikni með einhverjum stórvægilegum kostnaði vegna mengunarskatta fyrir okkur, það væri mjög gott að fá að vita það, og sömuleiðis hvernig staðið verði að sölu mengunarkvóta. Síðan er annað sem mig langar að spyrja hann um í sambandi við umhverfismál en það er að hættan virðist alltaf vera sú að þetta bitni á þeim sem verst eru staddir. Við getum bara tekið þá sem lifa við fátækt, þeir lenda oft verst í því þegar skattar eru settir á, mengunarskattar og ýmsir skattar. Svo eru þeir líka í verri stöðu eins og t.d. við bifreiðaskipti og reyna að komast í vistvæna bíla. Þessir einstaklingar eru yfirleitt á gömlum bílum sem menga mikið, hafa ekki efni á að kaupa nýjan bíl og þar af leiðandi er verið að þrengja að stöðu þeirra til þess að geta átt ökutæki. Er ekki kominn tími til að sjá til þess að þeir einstaklingar sem verst hafa það standi a.m.k. jafnfætis öðrum í því að hafa möguleika á að skipta úr mengandi farartæki yfir í rafbíla, tvinnbíla eða „hybrid“ eða aðrar bifreiðar? Það sé ekki alltaf verið að hampa þeim sem fjármuni hafa en setja svo skatta og umhverfisskatta sem bitna mest á þeim sem síst skyldi.