151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi þetta síðasta sem hv. þingmaður kom inn á. Ég vil taka undir með honum og ég held að við deilum algjörlega skoðunum um að þau umskipti sem þurfa að eiga sér stað vegna loftslagsbreytinga verða að vera sanngjörn og þau mega ekki bitna meira á þeim sem efnaminni eru en þeim sem efnameiri eru. Ein leið sem hægt er að nota í því má kannski segja að felist í breytingum á úrgangslöggjöfinni sem ég hef boðað, þau sem standa sig vel við að flokka sorp geti þá borgað minna. Það er ein leið. Vistvænu bílarnir eru mjög gott dæmi sem hv. þingmaður nefnir hérna. Þess vegna skiptir ofboðslega miklu máli að þeir geti farið á eftirmarkað sem fyrst. Stærstur hluti bifreiðaflotans á eftirmarkaði kemur frá bílaleigum, það eru um 40–50%, og þar er ekki um marga vistvæna bíla að ræða. Eitt af því sem við erum að leggja fram í þessari fjármálaáætlun er einmitt meira fjármagn til að flýta þeirri þróun, hún skiptir máli. En við verðum líka að setja þessi sanngjörnu umskipti í samhengi við annað sem verið er að gera, eins og t.d. að það er búið að koma á þriggja þrepa skattkerfi sem hentar best þeim sem minnst hafa milli handanna, hækkaðar barnabætur o.s.frv., sem hafa mest nýst þeim sem minnst hafa milli handanna þó svo að ávallt megi gera betur í þeim málum.

Aðeins varðandi mengunarkvótana eða viðskiptakerfið með losunarheimildir þar sem fyrirtæki eins og álverin okkar fá útdeilt ákveðnum mörgum einingum en þurfa að kaupa það sem upp á vantar. Það er í rauninni hugsað þannig að þegar verðið á heimildunum er orðið það hátt að það borgar sig að finna leiðir til að draga úr menguninni þá muni það gerast. Það kemur í sjálfu sér ekki við ríkissjóð. En við þurfum hins vegar (Forseti hringir.) að standa skil á okkar alþjóðlegu skuldbindingum árið 2030 og áætlanir okkar gera ráð fyrir því að við munum gera það. Þau stjórnvöld sem verða við stjórnvölinn fram til 2030 þurfa að tryggja það hverju sinni að við stöndumst þau markmið.