151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi verið framan af allt satt og rétt hjá hv. þingmanni, þar sem hann var að hrósa ríkisstjórninni fyrir metnaðarfulla uppbygging í innviðum. Ég held að það sé ekki bara rétt heldur sanngjarnt að viðurkenna það. Við höfum sett mjög mikið í gang á mörgum sviðum innviða á þessu kjörtímabili og náð miklum árangri. Við höfum nýtt tækifærið þegar möguleiki gafst á að koma fram með fjárfestingarátak vegna alheimsfaraldursins, ekki bara eitt heldur tvö. Eitt sem tók til verkefna sem hægt var að framkvæma á árinu 2020 og voru tilbúin, mörg hver eru búin og önnur eru að klárast, og fjárfestingarátak sem hófst á þessu ári og horfir þá inn í 2022 og 2023 og í einstaka tilfellum jafnvel aðeins lengur í húsbyggingum, ekki endilega í vegagerð. Ég útskýrði áðan í fyrri ræðu af hverju talan lækkar til framkvæmda í vegakerfinu eða heildarsamgöngunum. Það er m.a. út af fjárfestingarátakinu en líka vegna þess að við vorum að fjármagna okkur í fjármálaáætlun og þar settum við aukið fé til að koma hlutum í gang af því að það er rétt hjá hv. þingmanni, það var eiginlega ekkert gert allt of lengi frá efnahagshruninu. En við höfum svo sannarlega snúið því við og við erum búnir að tryggja að það framkvæmdastig haldist mjög hátt. Ef við leggjum síðan samvinnuframkvæmdirnar, vegasamgöngubætur og almenningssamgöngurbæturnar á höfuðborgarsvæðinu ofan á þá erum við að tala um mestu fjárfestingar í samgöngum í mjög langan tíma. En við höfum ekki gleymt viðhaldinu. Árið 2016 voru settir í það 5,5 milljarðar. Við erum komin í 10, 11 milljarða. Nýjasta þörfin er reyndar metin á 14 (Forseti hringir.) þannig að það eru enn áskoranir um að bæta þar í og mikil þörf á og ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar.