151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í gær kvartaði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yfir þeim ramma sem þingið skammtaði honum og segist bara getað unnið innan ramma og ekkert meira en það. Hér hreykir síðan sveitarstjórnarráðherra sér af því að ríkisstjórnin sé að gera svo mikið aukalega fyrir fjármagnið sem þingið samþykkti. Það er ekki hægt að halda bæði og sleppa. Það er þingið sem er með fjárveitingavaldið. Vandamálið sem ég sé í þessu öllu er að þingið fær ekki útskýringar á því af hverju hlutirnir kosta hitt og þetta, af hverju þeir kosta svo lítið eða mikið og hver árangurinn er af þeim fjármunum sem við eigum að nota. Í málaflokki hæstv. ráðherra er staðan þó einna best með samgönguáætlun þar sem kostnaðargreiningin er nokkuð góð þó að það vanti upp á ábatagreininguna. En það eru nokkrir mælikvarðar sem var kvartað undan í síðustu fjármálaáætlun, sem við erum í raun efnislega að endurtaka með þessari, engu breytt. Þeir virkuðu einfaldlega ekki. Þeir eru ekki uppfærðir. Það var t.d. talað um jafnt aðgengi að þjónustu, varðandi hlutfall þeirra sem eru innan við 30 km fjarlægð frá heilsugæslu, grunnskóla, dagvöruverslun. Það er mælikvarði sem veinfaldlega virkar ekki því að hann hvetur í rauninni til þéttbýlisvæðingar sem slíkrar. Núna þegar dagvöruverslun var lögð niður á Kirkjubæjarklaustri er væntanlega ekki búið að ná þessum markmiðum þannig að mér fyndist áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra um þetta. Ef mælikvarðarnir eru gallaðir í fjármálaáætlun sem er nú í gildi og er nú verið að leggja fram aftur, er efnislega sú sama, hvar er þessi vinna sem ríkisstjórnin er að hreykja sér af þegar allt kemur til alls?