151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt. Við getum komið hérna, ráðherrarnir, og kvartað við þingið um að við fáum ekki nægar fjárheimildir og rammarnir séu ekki nægjanlega miklir og ég get alveg sagt að þegar við horfum á þörfina fyrir fjárfestingar í samgöngukerfinu, vegakerfinu, höfnunum, flugvöllunum, þá væri sannarlega hægt að nýta meira fé og fá hærri fjárheimildir. Áskorunin er þá hvernig við ætlum að forgangsraða því og koma því fyrir í stóru myndinni þegar við erum líka með umtalsverðan rekstur í öðrum kerfum.

Ég ætla líka að taka undir með hv. þingmanni að við gætum farið fram á betri kostnaðargreiningar. Ég ætla að halda því fram hér að Vegagerðin standi sig einna best enda kannski sú stofnun sem hefur verið lengst í þessum bransa, ef svo má að orði komast. Samgönguáætlun er ein af okkar elstu áætlunum og þess vegna áttum við mikið af hugmyndum sem við gátum framkvæmt í fjárfestingarátakinu. Ég ætla að segja að við séum ekki að stæra okkur af því þó að það hljómi kannski þannig en ég er alla vega gríðarlega ánægður þegar við getum sýnt fram á að það sé verið að fara í arðsamar framkvæmdir sem bæta umferðaröryggi. Ég hef oft sagt að árangur í umferðinni sé ekki síst mældur í lífsgæðum og mannslífum sem við spörum. En auðvitað er líka hægt að reikna þær stærðir.

Ég hef greiningar frá öðrum stofnunum þar sem mér finnst greiningin ekki nægilega góð. Tölurnar hækka í hvert sinn frá því að maður fær hugmynd, kemur henni inn í rammann og svo færðu hana uppfærða og þá passar ekki ramminn. Þá fer maður í einhverja forgangsröðun og svo koma nýjar upplýsingar og þá er allt farið og maður svona gefst hálfvegis upp. (Forseti hringir.) Ég skil vel að þingið vilji kalla eftir slíkum upplýsingum og ég skil líka að þingið eigi erfitt með það þegar við ráðherrarnir eigum stundum erfitt með að útskýra af því að við höfum ekki fengið nægilega góðar upplýsingar.