151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er bæði stoltur og þakklátur þinginu fyrir stuðning til að geta farið í framkvæmdir í vegakerfinu á þessu tímabili sem við erum að horfa á núna, 2022–2026. Í viðhald og framkvæmdir verður það 121 milljarður til samanburðar við 75 milljarða 2013–2017. Þetta er gríðarleg aukning og þess vegna verða miklar framkvæmdir og framfarir og þetta eru arðsamar framkvæmdir sem skila okkur líka vel á veg inn í framtíðina.

Ég vil ekki halda því fram að menn séu að hreykja sér af útgjöldum eða eitthvað slíkt og það er sérstök ákvörðun að leyfa sjálfvirkum kerfum að virka. Jöfnunarsjóðurinn er nátengdur hagvextinum og landsframleiðslunni, hann vex og lækkar, og það er alveg rétt að geta þess að það bætist þarna í. En ég er ekki að hreykja mér af því. Á sama hátt og hv. þingmaður kallar eftir því að við segjum satt og rétt frá þessu þá hef ég þurft að standa hér og útskýra að það sé ekki blóðugur niðurskurður á jöfnunarsjóði af völdum ríkisstjórnarinnar. Niðurskurður var ekki ákvörðun okkar heldur er það bara útreikningur á því að landsframleiðslan féll, eðlilega, og þess vegna lækkuðu framlög í jöfnunarsjóð. Hvað gerðum við hins vegar í því? Við komum með viðbótarfjármagn inn í ákveðna hluti til að styðja við sveitarfélögin. 720 milljónir í fjárhagsaðstoð, 600 milljónir í málefni fatlaðs fólks, heimild til að nýta fasteignasjóð upp á 1,5 milljarða og það verða miklar framkvæmdir (Forseti hringir.) sem menn munu nýta sér á þessu ári. Það eru ákvarðanir sem eru teknar og ég held að sé ágætt að upplýsa bæði þing og þjóð um.