151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég bið forseta strax um að fá tvær til þrjár mínútur í viðbót. (HKF: Forseti segir já.) Þetta var grín. Þetta er í mínum huga nokkuð einfalt og ég er sjálfum mér samkvæmur. Ég hef sagt að umræðan um skipulagsreglur í loftferðalögum sé stormur í vatnsglasi og ég stend við það. Það er skipulagsreglugerð í gildi á öllum alþjóðaflugvöllunum. Við erum að uppfæra lögin. Lögin eru fyrir breytingar á skipulagslögum og þess vegna eru þau ítarlegri, til að skýra um hvað verið er að ræða. Það tekur enginn einhliða neitt af einu eða neinu sveitarfélagi. Hins vegar, og það er kannski áhugaverður punkturinn í þessu, þurfa menn að koma saman í svona skipulagsreglugerð. Það er sem sagt enginn einn sem getur tekið ákvarðanir er varða mjög mikilvæga almannahagsmuni. Það var einmitt það sem reyndi á eftir óveðrið 2019. Þá settum við á laggirnar starfshóp sem fann leið til þess með samstarfi sveitarfélaga og ríkis að byggja flutningskerfi línanna. (Gripið fram í.)

Við erum búin að fara í gegnum nýlega breytingu á skipulagsreglugerð flugvallarins í Keflavík. Það gerðum við með utanríkisráðuneytinu af því að þar fer utanríkisráðuneytið með skipulagsvaldið og sveitarfélögin sem eru á svæðinu. Það sama ætti auðvitað líka að vera hið almenna viðhorf varðandi Reykjavíkurflugvöll, þ.e. Reykjavíkurborg hefði átt að koma hingað og segja: Við ráðum þessu auðvitað ekki ein. Þetta er innanlandsflugvöllur, miðstöð innanlandsflugs á Íslandi. Það er fullkomlega eðlilegt að það standi eitthvað í skipulagsreglugerð og að allir aðilar máls, þ.e. ríkið sem fer með þessa almannahagsmuni og viðkomandi sveitarfélag, séu sammála um það (Gripið fram í.) og séu ekki í látlausum slag. Það er enginn að taka vald af einum eða neinum. Það er einmitt verið að skrifa út að þetta sé samstarf, samvinna og að menn þurfi að koma sér saman um hlutina. Það sama hef ég sagt um miðhálendisþjóðgarðinn, að það þurfi að taka tillit til sjónarmiða lítilla sveitarfélaga. Það sama gerði ég í máli varðandi lögbunda (HKF: Sameiningu sveitarfélaga.) sameiningu sveitarfélaga. Ég sagði: Ókei. Hér er mikil andstaða. Bökkum með frumkvæðisskyldu ráðherrans, fáum alla með, (Forseti hringir.) setjum markmiðsgreinina inn, reynum að ná ávinningnum jafnvel þótt það taki aðeins lengri tíma. Þannig að ég var sjálfur mér samkvæmur allan tímann.

(Forseti (BN): Forseti gleymdi sér aðeins.)