151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun og nú er komið að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ljóst er að á tímum fjármálaáætlunar munu nýframkvæmdir á samgöngumannvirkjum halda áfram. Öllu óljósara er viðhaldsstig samgöngumannvirkja. Er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir auknu viðhaldi á næstu árum eða á einfaldlega að halda áfram með sömu plástrana hér og þar, bútasaumaða vegi úti um allt land, ömurlega vegasmíði og tjörublæðandi vegi með tilheyrandi sóðaskap og eyðileggingu á farartækjum? Það hefur skapast mikill vandi á sveitarstjórnarstiginu með viðhald á samgöngumannvirkjum. Sveitarfélögin eiga erfitt með að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir á eigin vegum og eru götur sveitarfélaganna hægt og rólega að eyðileggjast. Það er þörf á átaki á þessu sviði og ljóst að ríkið þarf að koma að viðhaldi á vegum sem eru á ábyrgð sveitarfélaga. Þau eiga einfaldlega ekki fé til að viðhalda vegum á öruggan hátt. Slysin gerast ekki bara á þjóðveginum.

Hefur ráðherra í hyggju aðgerðir til að sporna gegn því að vegir sveitarfélaga grotni niður? Hvaða áætlanir er hann þegar með um að laga bútasaumaða vegi úti um allt land og þá líka tjörublæðandi vegi? Er ekki kominn tími til að við notum almennilegt efni, gerum almennilega vegi þannig að það sé minni hætta og meira öryggi?