151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir svörin. Jú, auðvitað er þetta allt dýrt en öryggi kostar og mannslíf eru líka dýr og tjón sem verður vegna slysa. Mig langar að spyrja hvort það sé eitthvað í framtíðarplönum hjá samgönguráðherra um uppbyggingu vegar um Kjöl og Sprengisand. Ef fer sem horfir og ferðamennskan byrjar aftur þá held ég að veiti ekki af að gera eitthvað við þá vegi. Mig langar líka að fá vita um Sundabrautina, er hún ekki bara draumur í dós? Hún er ekki á þessari samgönguáætlun. Það er dustað af henni rykið annað slagið en meðan þeir sem ráða Reykjavíkurborg eru við völd hef ég enga trú á að Sundabrautin komist á koppinn. Það verður sett í einhverja nefnd og rifist um umhverfissjónarmið og annað. Síðan spyr ég hvort það sé hægt eða hvort það sé orðið of seint að stöðva þessa milljarða borgarlínu sem á að fara að gera, sem ég tel að séu mestu mistök sem við höfum gert í umferðarmálum vegna þess að á sama tíma er ekkert verið að gera til að auðvelda umferð í borginni. Það á að þrengja að henni og það á að gera hlutina mun verri. Tökum Breiðholtsbraut og mislægu gatnamótin sem rifist hefur verið um þar upp frá, þau eru loksins komin á dagskrá mjög breytt. Það er eins og það sé ekki hægt að laga neitt umferðarflæðið í Reykjavík (Forseti hringir.) eins og staðan er í dag og spurningin er: Telur hæstv. ráðherra að eitthvað verði úr framkvæmdum og eitthvað verði gert til að auðvelda umferð í Reykjavík í náinni framtíð?