151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Af hverju skyldum við fara yfir það sem er búið að gera? Það er vegna þess að verkin tala. Við höfum séð þannig sókn í þessum málaflokkum að við höfum bara ekki séð annað eins. Þetta veit hv. þingmaður og þess vegna hefur hann áhyggjur af menntastefnunni. Í menntastefnunni er einmitt hugað að öllum nemendum í landinu. Hverjar eru stoðirnar þar? Jú, jöfn tækifæri fyrir alla. Er hv. þingmaður á móti því að allir fái jöfn tækifæri? Ég trúi því ekki. Að kennsla sé í fremstu röð. Við vitum að öll þau menntakerfi sem eru framúrskarandi leggja áherslu á kennslu. Og hvað höfum við verið að gera? Við höfum verið að fjárfesta í nýliðun kennara, við höfum sett hundruð milljóna í það, með sérstakri áherslu á að hlúa að drengjunum. Þetta veit hv. þingmaður. Samt kemur hann hingað upp og þykist ekki kannast við eitt eða neitt. En verkin tala og við sjáum hvernig við höfum farið í þetta, það hefur verið lofsvert. Þess vegna vill hv. þingmaður alls ekki fjalla um það.

Annað sem mig langar til að nefna sem mér finnst mjög brýnt í menntastefnunni er að við setjum vellíðan í öndvegi. Við erum að huga að fólkinu okkar. Við vitum að ef við ætlum að ná árangri í menntun þá þurfum við að huga að vellíðan. Við setjum að lokum í stefnuna gæði vegna þess að við teljum að það sé mjög brýnt að við förum yfir allt skólastarf, að við bætum innra og ytra mat á skólastarfi. Og ástæðan fyrir því að þetta gengur allt mjög vel upp er að við höfum verið að fjármagna þetta, við höfum stækkað alla ramma. Þetta veit hv. þingmaður. Það getur verið erfitt að horfast í augu við það, en þetta eru staðreyndirnar. Þetta er það sem við höfum klárað.