151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá er ríkisfjármálaáætlun auðvitað mjög sérstök eins og hún er og við höfum verið að stækka ramma og þeir halda sér áfram, þeir halda sér, eins og ég fór yfir. Ég veit að það getur verið svolítið svekkjandi fyrir hv. þingmann að sjá hvernig við erum búin að efla þessi málefnasvið. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Förum aðeins yfir þetta. Förum aðeins yfir framhaldsskólana þar sem hefur orðið 25% aukning. Ætlar hv. þingmaður að segja mér það að við höfum ekki gert neitt? Auðvitað byggir menntastefnan á þessari aukningu. Það sem við höfum verið að gera er að tryggja fjármuni til framtíðar og stækka rammana. Hv. þingmaður gerir sér algerlega grein fyrir því en kemur hér og talar sjálfur um einhverja frasa. Ég fullyrði það að eins og við höfum farið í þetta, verið að fjárfesta í fólkinu okkar, þá höfum við ekki séð annað eins í langan tíma og það stressar hv. þingmann vegna þess að hér erum við búin að ná árangri. Við erum ekki bara að tala um það, bara alls ekki.

Ef við lítum t.d. á háskólastigið þá er þar 14% uppbygging, 14% raunaukning. Ætlar hv. þingmaður að segja mér það að við höfum ekki verið að gera neitt? Menntastefnan byggir auðvitað á þessum góða grunni og horfir til framtíðar. Við höfum verið að setja hundruð milljóna í menntaumbætur og til að styðja betur við fólkið okkar.