151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Í tengslum við Listaháskólann og framtíðaráform hans höfum við unnið að því að áformin komist á þann stað að við getum hafist handa við að fjárfesta í nýjum listaháskóla. Við höfum verið að skoða nokkra valmöguleika og farið í frumathugun og við áttum okkur á því hversu mikil fjárfestingin er. Það er alveg ljóst í mínum huga að til að huga að framtíðinni og fara í frekari fjárfestingar þá eigum við að hlúa að nýjum listaháskóla. Við vonumst til þess að í byrjun júní verðum við komin með endanlega niðurstöðu um hvaða skref verða tekin hvað það varðar. Ég tel að við munum sjá að Listaháskólinn verði kominn í betra húsnæði á næstu árum vegna þeirrar vinnu sem við höfum farið í. Við ákváðum að endurskoða nokkra þætti en við vinnum þetta öll í nánu samstarfi, forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, og vonumst til þess að komin verði endanleg niðurstaða í byrjun júní. En það tekur engu að síður þann tíma.