151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð yfir stóru línurnar. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að dvelja við þær hér heldur vil einbeita mér að því smærra því að fegurðin er oft í hinu smáa, en þó í því stóra því að smátt getur verið stórt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um örlög og stöðu Garðyrkjuskólans á Reykjum. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið að skoða þau mál og haft skoðanir á því hvernig þeim er fyrir komið. Það er engum blöðum um það að fletta að staðan þar hefur verið þannig að fólk veit eiginlega ekki alveg hvað er að gerast sem er ekki nógu gott varðandi jafn mikilvæga starfsemi. Þarna erum við að fjalla um vöggu garðyrkju á Íslandi, garðyrkjumenntunar og -ræktunar og framfara í þeim.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki sé gert ráð fyrir því að þessum málum sé einfaldlega komið á hreint þannig að enginn þurfi að hafa neinar áhyggjur af Garðyrkjuskólanum á Reykjum og þar verði áfram þessi mikilvæga starfsemi og þar verði þessi vagga áfram. Forsvarsmenn þeirra stofnana sem að þessu hafa komið geti verið rólegir með það og ekki síst nemendurnir sem þar eru og svo við öll því að ég er algerlega sannfærður um að hluti af þeirri framtíð sem við viljum stefna að er akkúrat uppbygging þessara greina og tengdra greina, sem ég kem kannski betur inn á á eftir.