151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Staðan á Reykjum er góð og verður áfram góð. Við höfum ákveðið að við ætlum að efla starfsnámið og að miðstöðin verði að Reykjum. Við höfum tekið ákvörðun um það. Við höfum unnið þetta með garðyrkjunni, við höfum kallað eftir auknu samráði og samvinnu. Við höfum líka unnið þetta með Landbúnaðarháskólanum. Þar ætlum við að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun. Við ætlum að efla starfsnámið að Reykjum og það er mjög mikilvægt. Það þarf ekki nokkur maður, hvorki nemendur né starfsfólk, að hafa áhyggjur af því að við ætlum ekki að ná utan um stöðuna á Reykjum. Það er alveg ljóst í okkar huga og við höfum unnið að því og munum áfram gera það. Það eru mjög mörg og mikilvæg tækifæri sem felast í innlendri matvælaframleiðslu. Við viljum auka hana og við lítum svo á að Garðyrkjuskólinn og öll sú starfsemi sé lykilatriði í því að efla innlenda matvælaframleiðslu. Við höfum farið í mikla vinnu í ráðuneytinu og í samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands um það hvernig við ætlum að tryggja aðstöðuna til framtíðar. Og ég er mjög bjartsýn á að þetta muni takast vel og við sjáum ákveðin merki þess.