151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari tillögu hv. þingmanns. Hún er mjög mikilvæg. Við sjáum auðvitað, eins og kemur hér fram, að það hafa allir skoðun á því sem er að gerast í Garðyrkjuskólanum og ég tel að sé jákvætt. Ég hef farið að Reykjum og hitt nemendur og starfsfólk og við höfum sagt það í ráðuneytinu að við þurfum að fjárfesta enn frekar í þessu svæði og það er viðurkenning á því að efla starfsnámið. Við sjáum hvernig Fjölbrautaskóli Suðurlands kemur mjög sterkur inn í þessa stöðu. Okkur er líka mjög annt um Landbúnaðarháskólann og við sjáum það fyrir okkur að hann fari í frekari sókn í nýsköpun og þekkingu, en að starfsnámið eflist á Reykjum og það sem þar er og í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ég tel að svona klasastefna og allt sem tengist sjálfbærni í matvælaframleiðslu sé leiðin fram á við á Íslandi. Við sjáum það núna í Covid að það eru svo mörg tækifæri sem tengjast líka tækniframförum, hvernig við getum aukið framleiðsluna, hvernig við getum búið til gjaldeyri. Ég tel að við getum flutt út frekar en að vera að flytja endalaust inn hvað þetta varðar. Við höfum öll þessi gæði, alla þessa náttúru og við vitum að starfið að Reykjum er frábært og við ætlum að hlúa að því.