151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:18]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra er tamt að vísa til þess sem þingmenn hljóta að gera sér grein fyrir og hljóta að skilja. En ég er ekki eini þingmaðurinn sem hér kemur upp og er einfaldlega að rýna í tölur. Hæstv. menntamálaráðherra vill tala um eitthvað sem áður hefur verið gert en hér erum við einfaldlega, og hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því, að ræða fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir. Tölurnar þar tala sínu máli og við hljótum að gera ráð fyrir að þær séu réttar. Þar er veruleikinn gagnvart framhaldsskólanemendum landsins ansi skýr. Ég hélt mig við skólana í fyrri ræðu því að þeir hafa lykilhlutverki að gegna í kreppuástandi. Þeir geta verið skjól nemenda og um leið sókn okkar út úr kreppunni.

Ríkisstjórnin hefur verið iðin við að blása til blaðamannafunda með gleðitíðindum. Ráðherra fékk t.d. í nóvember síðastliðnum samþykkt í ríkisstjórn að fara í viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref í byggingu nýs þjóðarleikvangs og þar hefur verið stofnaður starfshópur. Ég velti því fyrir mér og hefði áhuga á að heyra það hjá hæstv. fjármálaráðherra hvernig fjármögnun þessa þjóðarleikvangs lítur út samkvæmt fjármálaáætluninni. Er leikvangurinn hluti af innviðauppbyggingu á þessum krepputímum?

Hin spurningin varðar menninguna, listina og íþróttastarfið sem við vitum öll að hefur fengið að finna illa fyrir takmörkun og lokunum. Þar nefndi hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson 14% lækkun frá fjárlögum. Það eru köld skilaboð og nöpur. Ég hef miklar áhyggjur af menningarstarfinu og listastarfinu á þessum tímum. Það er staðreynd að þessar greinar eru meðal þeirra sem þyngstu byrðarnar bera vegna sóttvarnaaðgerða. Þær voru nauðsynlegar en þær eru þungar. Ég hefði viljað að stjórnvöld stæðu betur með þessum greinum og hefði viljað sjá einhverja framtíðarsýn og að við sæjum sóknarfærin og nýsköpun (Forseti hringir.) í íslenskri menningu í þessari fjármálaáætlun, t.d. hvað varðar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. (Forseti hringir.) En ég hefði áhuga á að heyra um íþróttaleikvanginn.