151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin og tek heils hugar undir það sem hún sagði og vona heitt og innilega að við séum komin með þetta í réttan farveg. Sennilega hafa sóttvarnaráðstafanir haft einna mest áhrif á menntaskólanemendur. Þarna eru mótunarárin lituð af sóttvarnaaðgerðum og mögulega kann þetta að hafa áhrif á líf þessara barna fram í tímann. Hefur ráðherra í hyggju að kanna hvaða áhrif röskun á menntaskólastarfi hefur haft á andlega líðan barna, félagslega mótun þeirra og námsframvindu? Telur ráðherra að ráðast þurfi í einhverjar aðgerðir á næstu árum til að koma í veg fyrir að þessi börn verði að týndum árgöngum seinna meir?

Við vitum að Covid hefur valdið mikilli röskun hjá unga fólkinu okkar og börnum í menntakerfinu. Þess vegna þarf að vera skýr stefna um það hvernig eigi að taka á andlegri líðan þessara barna og líka hvernig við sjáum menntunina fyrir okkur í framtíðinni. Við vitum að nú er t.d. komið í óefni með samræmdu prófin. Við þurfum einhvern veginn að finna gullna meðalveginn í Covid-faraldrinum þannig að við getum gripið sérstaklega þá viðkvæmu sem eru í mestri hættu á að flosna upp úr skóla og eru þar af leiðandi í hættu á því að lenda í ógöngum í framtíðinni og verða jafnvel öryrkjar sem er ekki eftirsóknarvert í okkar samfélagi. Þess vegna ber okkur skylda til þess að reyna að sjá til þess að allir fái menntun og aðstoð til þess að geta menntað sig eins og þörf er á.