151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlun er stefnumarkandi áætlun um hvernig ráðuneytin hyggjast verja fjárheimildum málefnasviða með sem árangursríkustum hætti fyrir samfélagið. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviðunum dómstóla, almanna- og réttaröryggi og réttindum einstaklinga, en þau tvö fyrrnefndu heyra að litlum hluta undir forsætisráðuneytið. Þegar horft er út áætlunartímabilið er um að ræða mjög óverulegar breytingar á útgjaldarömmum frá gildandi fjármálaáætlun og fjárlögum. Þetta á sérstaklega við um málefnasvið dómstóla og málefnasvið réttinda einstaklinga. Á málefnasviði almanna- og réttaröryggis er áfram gert ráð fyrir framlagi til að mæta stofnkostnaði við byggingu sameiginlegs húsnæðis fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og greiðslur vegna þess framlengdar til ársins 2026. Eins og gerð var grein fyrir í núgildandi fjármálaáætlun er um að ræða húsnæði fyrir ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæsluna, tollgæsluna, Neyðarlínuna 112, Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Frumathugun verkefnisins er nú lokið og í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fullri fjármögnun verkefnisins. Gert er ráð fyrir því að heildarstærð húsnæðisins geti orðið allt að 26.000 fermetrar og muni gerbreyta starfs- og vinnuumhverfi viðbragðsaðila á Íslandi til hins betra.

Megináherslur ráðuneytisins síðustu árin að öðru leyti á málefnasviði almanna- og réttaröryggis hafa verið að auka öryggis- og þjónustustig í leit og björgun með skýrum markmiðum og mælikvörðum og koma á rafrænum flutningi gagna þvert á stofnanir réttarvörslukerfisins með áherslu á skilvirka og örugga þjónustuferla. Löggæslan hefur verið efld til muna á síðustu árum eða sem nemur 6,3 milljörðum kr. á árunum 2014–2019 á verðlagi hvers árs. Þar vega þyngst framlög vegna styrkingar á landamæravörslu á grundvelli Schengen-samstarfsins, að bregðast við auknu álagi á löggæsluna vegna fjölgunar ferðamanna, aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu, efling aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi og efling aðgerða gegn peningaþvætti. Áfram verður haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og unnið að eflingu löggæslunnar í samræmi við samþykkta löggæsluáætlun.

Þrátt fyrir frestun á kaupum á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna hefur verið tryggt fjármagn til að hafa þrjár nýlegar og öflugar björgunarþyrlur í fullum rekstri Gæslunnar og mun sú þriðja bætist í flotann fljótlega upp úr næstu mánaðamótum. Hún kemur í stað þyrlunnar TF-LÍF sem þjónað hefur landinu með miklum ágætum í mörg ár. Með nýrri þyrlum og fjölgun þyrluáhafna hefur viðbragðsgetan aukist og stofnuninni gert betur kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þá er gert ráð fyrir að flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli verði stækkað og núverandi viðbyggingar rifnar. Þannig rúmi skýlin viðhald og geymslu á núverandi og framtíðarflugflota Landhelgisgæslunnar. Þá hafa aðstæður komið upp sem bregðast þarf við og er ekki gert ráð fyrir í fjármálaáætlun eins og kaup á nýju skipi Gæslunnar, Freyju.

Megináherslur ráðuneytisins síðustu árin á málefnasviði réttinda einstaklinga hafa verið að styrkja rafræna innviði með því markmiði að bæta þjónustu við borgarana og nýtingu ríkisfjármuna með aukinni stafrænni málsmeðferð og gagnvirkri upplýsingagjöf. Þessu samfara er gert ráð fyrir að ráðist verði í endurskoðun á ferlum. Unnið hefur verið verkefni um stafræna réttarvörslugátt í ráðuneytinu síðustu misseri. Helstu áherslur verkefnisins eru gögn réttarvörslukerfisins verði aðgengileg stafrænt, þvert á stofnanir, með öruggum hætti. Mikil áhersla er lögð á að aðilar fái aðgang að öllum gögnum um leið og þau eru tiltæk og að lágmarka ferðir milli stofnana með því að bjóða örugga leið fyrir gögn og upplýsingar. Í fyrstu verður megináherslan á að gögn flæði á milli stofnana en síðar meir í kerfinu og er ætlað að veita yfirsýn og rekjanleika auk þess sem aðgangur verður fyrir ytri aðila kerfisins til þess bæði að senda inn og móttaka gögn og fylgjast með gangi mála. Þetta getur aukið traust á kerfinu til muna, stytt málsmeðferðartíma og gagnvirka upplýsingagjöf sem og auðvitað bætt nýtingu þeirra fjármuna sem eru í kerfinu. Þess má geta til gamans að réttarvörslugáttin, hefur verið tilnefnd til íslensku vefverðlaunanna í flokknum Verkefni. Það er því ljóst að eftir þessi verkefni er tekið og almennt litið á þetta sem mikið framfaraskref í íslensku réttarkerfi eins og aðrar stafrænar byltingar og þá miklu fjárfestingu sem er í þeim málum í þessari fjármálaáætlun.