151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir prýðilega yfirferð yfir þennan málaflokk. Ég hef nokkrar spurningar vegna þess að eins og í fleiri málaflokkum þá lítur ekki út fyrir raunaukningu á málefnasviði hæstv. ráðherra. Ég hef tekið eftir því að tækjakostur á Keflavíkurflugvelli hefur verið bættur mjög í kjölfar Schengen-úttektar og bætt þar úr. Það er hins vegar deginum ljósara að löggæsla á landamærum hefur verið undir miklu álagi undanfarið og verður svo fyrirsjáanlega áfram, ekki bara á meðan Covid stendur heldur líka eftir það. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún ætli sér, þótt þess sjái ekki stað í þessari fjármálaáætlun, að efla starfsemi á landamærum lögreglunnar og þá hvernig, ef ekki koma til auknir fjármunir.

Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún minnist á að stækka eða byggja eigi við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, og nú er sú borgarstjórn sem nú ríkir í Reykjavík staðfastur andstæðingur Reykjavíkurflugvallar og vill þrengja að honum sem mest hún má: Er hæstv. ráðherra ekki rög við að leggja í miklar fjárfestingar við þennan flugvöll, við flugsækna starfsemi þegar borgarstjórn er jafn andsnúin og fjandsamleg flugvelli og flugsækinni starfsemi og raun ber vitni?