151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég tek mjög undir það með hæstv. ráðherra að Landhelgisgæslan þurfi betri aðstöðu til að sinna viðhaldi. Að vísu segir ráðherra að hægt sé að flýja af hólmi með skýlið ef þannig ber undir. En ég vona að þetta skýli verði frekar til að festa flugvöllinn og starfsemina þar í sessi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í annan málaflokk sem undir hana heyrir sem hefur verið mjög fyrirferðarmikill fjárhagslega, og það eru málefni útlendinga og hælisleitenda. Sá málaflokkur hefur farið mjög fram úr fjárheimildum undanfarin ár. Við erum í þeirri stöðu, Íslendingar, að taka á móti mun fleiri hælisleitendum og leitendum eftir alþjóðlegri vernd en næstu nágrannaþjóðir og munar þar heilmiklu. Þessar nágrannaþjóðir eru núna undir stjórn sósíaldemókrata, alla vega á tveimur stöðum, að herða mjög allar aðgerðir og herða á því að taka á móti færri flóttamönnum og þeim sem sækja um alþjóðlega vernd en áður, sem mun örugglega auka þrýsting á landamæri Íslands. Spurningin er þá: Finnst ráðherra eðlilegt að Íslendingar séu að taka á móti mun fleiri aðilum sem þarna undir falla en nágrannaþjóðir okkar? Þær hafa áratuga reynslu sem þær eru loksins að læra eitthvað af, virðist manni eftir því sem aðgerðir þeirra núna bera með sér. Hyggst ráðherra beita sér á einhvern hátt með lagasetningu til þess að hægt sé að taka á þessum málum þannig að bæði sé sómi að því fyrir ríkissjóð og einnig gagnvart þeim mannúðarsjónarmiðum sem þurfa að ríkja í málaflokknum?