151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil ræða málefni útlendinga, hælisleitenda og þeirra sem leita hingað til okkar eftir alþjóðlegri vernd, en væntanlega frá aðeins öðru sjónarhorni en hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson gerði. Ég sé nefnilega að í fjármálaáætlun sem við ræðum í dag eiga fjárframlög í málaflokkinn Réttur einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómstóla að standa í stað en undir þann málaflokk, málefnalið 10, heyra málefni útlendinga. Sömuleiðis kom fram í síðustu fjárlögum sem við ræddum hér að gert væri ráð fyrir því sama, að fjármunir sem ættu að fara í málefni útlendinga stæðu í stað. Í umræðu 7. október um fjármálaáætlun til ársins 2025 kom hins vegar fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra, ef ég fæ að vitna í það, með leyfi forseta, að það væri algerlega ljóst að hælisliðurinn, sem hefur verið tekinn frá Útlendingastofnun og er sérstaklega skilgreindur, hefði hækkað og þyrfti alltaf að hækka í fjáraukalögum í takt við aukna þjónustu. Við sjáum að á þessu ári og á síðasta ári er þjónustan meiri en gert hafði verið ráð fyrir þar sem fleiri aðilar bíða eftir niðurstöðu. Mig langar til að fá fram frá hæstv. dómsmálaráðherra: Hvar eru þeir fjármunir sem eiga að fara í þennan málaflokk? Og af hverju er engrar hækkunar að vænta, hvorki í síðustu fjárlögum né í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin, hvort sem það væri þá til stofnunar sem heyrir undir hæstv. ráðherra, sem er Útlendingastofnun og þá fyrir aukna þjónustu, búsetuúrræði og húsnæði sem (Forseti hringir.) stofnunin hefur verið með á sínum snærum, eða svo að önnur þjónusta við fólk sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd (Forseti hringir.) sé vel úr garði gerð og okkur til sóma?