151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra hér áðan að hækkanir til löggæslumála mætti einkum rekja til aukinnar landamæravörslu, sem er náttúrlega óhjákvæmilegt, og svo aukinnar áherslu á að taka á kynferðisofbeldi, sem er líka óhjákvæmilegt en vissulega lofsvert. Ég hef áður átt orðastað við hæstv. ráðherra út af mönnunarvanda lögreglunnar og þá sérstaklega um dreifðar byggðir landsins þar sem margir íbúar þurfa að una við að langt er að leita til lögreglu, sem fullnægir eiginlega ekki lágmarkskröfum um það þjónustustig sem á að ríkja í hverju sveitarfélagi. Nú er fyrirhuguð stytting vinnuvikunnar og þá bætist við sérstakur vandi, þ.e. að með styttingunni blasir við að fjölga þarf lögreglumönnum og þegar er farið að auglýsa eftir þeim. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvar er fjármagnið sem á að tryggja að hægt sé að standa að þessari fjölgun? Þetta bar á góma í október síðastliðnum og í áliti meiri hluta var rætt um að þessu þyrfti að mæta en útfærslu vantaði. Ég spyr hæstv. ráðherra um það hvenær þeirrar útfærslu sé að vænta.