151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni en það eru líka skýr markmið í löggæsluáætlun um viðbragðstíma og um aðstöðu lögreglunnar um allt land. Löggæsluáætlunin er gríðarlega víðfeðm og tekur á öllum þessum þáttum til að gæta að fullri þjónustu allra hér við lögregluna. Það er auðvitað aðstaða fyrir lögregluna um allt land, viðbragðstími hefur verið að styttast og unnið er að þessu með skýrum hætti, eins og ég greindi frá í ræðunni. Það er líka eitt af áhersluatriðum með auknum fjármunum til lögreglunnar á síðustu árum.

Það er rétt að verið er að fjölga lögreglumönnum vegna þessarar stöðu og sú fjármögnun mun koma úr almennum varasjóði fjármálaráðuneytisins. Það hefur verið tryggt. Verið er að vinna að útfærslunni með lögreglunni. Fyrir 1. maí mun liggja fyrir fullbúin útfærsla á þessum þáttum og þeim aukna kostnaði sem mun fylgja. Það sem vantar upp á eftir þá vinnu sem stendur yfir verður fjármagnað úr varasjóði.